Umræðutorg IV: Tónlist í stóra samhenginu – samfélagsleg fjárfesting

Umræðutorg IV: Tónlist í stóra samhenginu – samfélagsleg fjárfesting

Tónlistarnám sem hluti af lífsgæðum og velferð. Stuttar kynningar á nýsköpunarverkefnum varða leiðina í umræðutorg um tónlist í stóra samhenginu.

Umræðustjórnun:

Dr. Helga Rut Guðmundsdóttir

Tónlist og Heilabilun & DaDom

Sigurður Halldórsson

Sigurður Halldórsson, prófessor og fagstjóri, tekur þátt í umræðum og kynnir verkefni sem hafa verið í þróun við tónlistardeild Listaháskólans innan evrópska meistaranámsins NAIP (New Audiences and Innovative Practice). Á undanförnum 6 árum hefur námskeiðið Tónlist og Heilabilun verið starfrækt fyrir nemendur LHÍ í samvinnu við hjúkrunarheimi og dagþjálfunarstofnanir. Nýlega kom Sinfóníuhljómsveit Íslands einnig inn í samstafið með virkum hætti. Námskeiðið byggir á fræðslu og spunasmiðjum með þátttöku einstaklinga með heilabilun og umönnunaraðila þeirra. Einnig kynnir Sigurður nýhafið þriggja ára Erasmus verkefni sem tónlistardeildin tekur þátt í, með fulltingi Magneu Tómasdóttur söngkonu og tónlistarkennara, sem nefnist DaDom (eða Daily Dose of Music) þar sem þróað verður nám í tónlistariðkun fyrir sjúkraliða sem hafa tónlistarbakgrunn og vilja nýta tónlist í störfum sínum. Þátttakendur í verkefninu eru heilbrigðisstofnanir, háskóla- og framhaldskólastofnanir, tónlistarfólk og músíkmeðferðarfræðingar.

Tungumálatöfrar – Í takti tölum við saman

Dagný Arnalds

Jóngunnar Biering Margeirsson

Tungumálatöfrar eru íslenskunámskeið fyrir börn þar sem áhersla er lögð á að styrkja sjálfsmynd og íslenskukunnáttu þátttakenda í gegnum listsköpun. Í gegnum myndlist, tónlist, sögur, dans og leiki skapast umhverfi og vettvangur sem eflir málvitund og hvetur börnin til þess að tjá sig á íslensku. Með því að vinna saman að listsköpun myndast tækifæri til þess að eiga í samskiptum og nálgast tungumálið út frá sameiginlegri reynslu.

Tónlistin sem í barninu býr

– Inga Björk Ingadóttir

Hver er leið barnsins að tónlistinni?
Þegar tónlistin verður að griðarstað, að innan og utan um barnið, opnast nýjar leiðir. Leiðir til tjáningar, vaxtar og veru sem sú manneskja sem við erum. Að finna og kynnast sínum eigin tón, sinni eigin innri tónlist – og finna henni farveg – er tækifæri, markmið og vegferð tónlistarsköpunar með nemendum Hljómu.

Bítladraumurinn – tónlist með eldri borgurum

Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir

Fyrirlesturinn er að mestu um námskeið sem var haldið sumarið 2021 í á vegum Hafnarfjarðarbæjar í samstarfi við tvo kennara úr Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Verkefnið er sniðið að eldri borgurum sem hafa hljóðfærareynslu, formlega sem óformlega. Markmið verkefnisins er að bjóða fólki upp á námskeið þar sem þátttakendum gefst kostur á að bæta sig í hljóðfæraleik og samspili undir handleiðslu hljóðfærakennara.

Samfélagstengd námsbraut

– Gunnar Benediktsson

Skapandi tónlistarmiðlun er samfélagstengd námsbraut við Listaháskóla Íslands. Nemendur fá þjálfun í tónsköpun með ólíkum samfélagshópum, óháð bakgrunni og tónlistarþekkingu. Á námstímanum vinna nemendur til dæmis með hælisleitendum, grunnskólabörnum á ýmsum aldri, fólki í endurhæfingu og svo auðvitað samnemendum sínum.