Umræðutorg V: Nýjar leiðir & nýir markhópar
Hvaða nýju leiða og nýju markhópa þarf tónlistarskóli fyrir alla að horfa til?
Framsögur fimm frummælenda um nýjar leiðir í tónlistarnámi og tónlistarkennslu hjálpa okkur af stað við leitina að svari.
Umræðustjórnun:
– Sigrún Grendal og Jóhann Ingi Benediktsson
Hvernig kenni ég á netinu?
Jón Hilmar er e.t.v. eini íslenski tónlistarkennarinn sem kennir eingöngu í gegnum netið. Hann byrjaði að kenna á netinu árið 2015 og hefur eingöngu gert það síðan 2018. Nú í vor kláraði fyrsti nemandinn grunnpróf sem eingöngu lærir í gegnum netið. Jón Hilmar ætlar að segja okkur frá því sem hann hefur lært á þessum árum og hvaða skref þarf að taka til þess að láta netkennsluna ganga.
Skapandi Tónlist – Ný nálgun í tónlistarkennslu á Íslandi
Skapandi Tónlist er nýjasta deildin í Tónlistarskólanum á Akureyri. Deildin hefur nokkuð aðra nálgun en hefðbundið tónlistarnám, en mesta áherslan er lögð á sjálfstæð tónlistarverkefni. Hver nemandi kemur með hugmynd að tónlistarverkefni sem hann þróar með kennara sínum. Jafnframt sækir hann einkatíma á hljóðfæri, söng, eða hljóðversvinnu, og svo þá hóptíma sem best styðja við tónlistarverkefni hans. Námið er því sniðið að áhugasviði hvers og eins.
Endurræsum
Eigi tónlist í raun að vera fyrir alla kallar það á uppfærslu – uppfærslu á kerfum og uppfærslu á því hvernig við hugsum um tónlist og tónlistarnám. Það hvernig við nálgumst viðfangsefnin okkar er ekki bara sjálfstæð ákvörðun hverju sinni, hún er alltaf lituð af þeim hugsunum og kerfum sem hafa mótað okkur. Til að taka meðvitaða afstöðu um að breyta kallar því á djúpa og meðvitaða sjálfskoðun – það þarf stundum að endurræsa heilann – nú eða heilu kerfin!
Fimmtán árum síðar
Hugleiðingar um tónlist og tónlistarkennslu á liðnum árum og framtíðarpælingar.