Upplýsingar
Steinar Fjeldsted byrjaði ungur að fikta við tónlistarsköpun og var óhræddur að fara ótroðnar slóðir. Hann notaði t.d gamla síma sem „effecta“ á röddina, gömul kassettutæki og sampler.
Steinar hefur verið viðloðandi íslensku tónlistarsenuna um árabil en árið 1996 stofnaði hann ásamt félögum sínum hljómsveitina Quarashi sem náði gríðarlegum vinsældum út um allan heim. Steinar ferðaðist um heiminn með Quarashi en sveitin skrifaði undir stóran plötusamning við útgáfurisann Sony/Columbia. Sveitin vann og spilaði með mörgum af stærstu nöfnum heims. Má þar t.d nefna Cypress Hill, Eminem, The Strokes, Green Day, Supergrass, Pharrell Williams, Guns ‘N Roses, Weezer og svo mætti lengi telja!
Steinar er stofnandi Hjólabrettaskóla Reykjavíkur og hefur hann kennt nokkur þúsund krökkum, unglingum og fullorðnum á hjólabretti undanfarin 8 ár. Einnig stofnaði hann vefmiðilinn Albumm.is sem sérhæfir sig í umfjöllun um íslenska tónlist og menningu.
Fyrir tveimur árum síðan stofnaði Steinar tónlistarskólann Púlz, tónlistarskóli framtíðarinnar þar sem tónlistarsköpun og tæknikunnátta helst hönd í hönd. Lögð er mikil áhersla á sjálfstætt sköpunarferli með leiðsögn frá Steinari og öðru reyndu tónlistarfólki.
Hjá Púlz er kennt á öll nýjustu tæki og tól sem notuð eru í dag til tónlistarsköpunar. Í Púlz fá börn, unglingar og fullorðnir tækifæri, aðstöðu og leiðsögn til þess að smíða eigin tónlist í faglegu og skapandi umhverfi. Leiðbeinendur Púlz eru allt framúrskarandi tónlistarfólk með mikla reynslu úr tónlistarheiminum og við kennslu.
Hjá Púlz finnur þú þína braut í tónlistinni.